Published On: 21/10/20214.7 min readCategories: Fræðsluefni, Ólögleg hegðun á netinu

Ef þú hefur skoðað kynferðislegar myndir af börnum eða átt kynferðisleg samtöl við ungmenni yngri en 18 ára getum við veitt þér stuðning og bent á gagnlegar leiðir til að stöðva slíka hegðun. Gott er að lesa fyrst þessa grein og fara síðan í sjálfshjálparæfingar.

Ef þú hefur áhyggjur af hegðun þinni og vilt breyta henni, hafðu samband við fagaðila hjá Taktu skrefið.

Með því að skoða þessa síðu hefur þú tekið skref í rétta átt. Við getum aðstoðað þig við að skilja bæði ástæður og afleiðingar af óviðeigandi kynhegðun á netinu og bent á úrræði sem hjálpa til við að stöðva frekari hegðun.

  • Mögulega hefur þú ekki gert neitt ólöglegt enn sem komið er en hefur áhyggjur af hegðun þinni á netinu.
  • Mögulega hefur þú hætt að skoða kynferðislegar myndir eða hætt kynferðislegu netspjalli við börn eða ungmenni.
  • Mögulega ert þú til rannsóknar hjá lögreglunni vegna kynferðisbrots eða kannski veit enginn um nethegðun þína.

Að stíga fyrstu skrefin er oft erfitt og það er eðlilegt að stundum muni þér ganga vel en á öðrum tímum reynist það erfiðara. Við viljum styðja við þig að gera þessar breytingar. Við vitum að fólk getur og hefur hætt ólöglegri hegðun á netinu. Við teljum að þú hafir alla burði til að gera slíkt hið sama og reynum að leiðbeina þér eftir bestu getu.

Átt þú í vanda með skaðlega hegðun á netinu?

Afleiðingar

Margir sem brjóta af sér á netinu halda að það muni aldrei komast upp um þá en það er ekki rétt. Lögreglan á í umfangsmiklum rannsóknum sem eru sérstaklega miðaðar að því að ná fólki sem brýtur af sér á netinu.

Margir halda að einu afleiðingarnar séu afskipti lögreglunnar og í versta falli að enda í fangelsi. En afleiðingarnar geta orðið meiri. Til dæmis getur það haft áhrif á umgengni þína við börnin þín, sambönd þín, fjárhagsstöðu og starfsmöguleika þína.

Þegar fólk veltir fyrir sér mögulegum afleiðingum hegðunar sinnar er það oft í sambandi við handtöku og afplánun í fangelsi en síður um áhrif á sambönd sín og á aðra þætti í lífinu.

Áhrif á sambönd

Hvernig mun maka þínum, börnum og foreldrum líða ef þau komast að því að þú hafir verið að sýna af þér ólöglega eða óviðeigandi kynferðislega hegðun á netinu? Hvernig sérðu fyrir þér að segja fjölskyldu þinni frá því sem þú hefur verið að gera? Hvað mun þeim finnast um það ef þú skyndilega flytur af heimilinu án nokkurra skýringa?

Margir einstaklingar í þinni stöðu eru heppnir þar sem fjölskyldumeðlimir og vinir styðja þá í gegnum ferlið. Aðrir eru því miður ekki svo heppnir. Enginn getur spáð fyrir um viðbrögð annarra. Ert þú til í að taka þá áhættu eða viltu leita þér aðstoðar núna?

Fjölmiðlaumfjöllun

Það gæti verið að fjallað verði um málið þitt í fjölmiðlum. Mikilvægt er að vera meðvitaður um þann möguleika og hvaða áhrif það getur haft á þig, börnin þín, maka og aðra fjölskyldumeðlimi.

Fjárhagur

Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að hegðun þín hefur ekki eingöngu áhrif á þína atvinnu heldur getur það einnig haft áhrif á atvinnu annarra í fjölskyldunni.

Ef þú starfar með börnum

Ef vinnan þín felur í sér mikil samskipti við börn, til dæmis ef þú ert grunnskólakennari eða læknir, þá verður þú að hætta í þeirri vinnu strax. Í skýrslutöku hjá lögreglu er spurt um atvinnu þína og jafnvel óskað eftir að þú segir strax af þér. Einnig gætirðu þurft að upplýsa atvinnurekendur um hegðun þína.

Ef þú starfar ekki með börnum

Ef þú ert undir rannsókn lögreglu þarftu að skoða ráðningarsamninginn þinn. Í sumum ráðningarsamningum er gerð krafa um það að starfsmenn upplýsi yfirmenn ef lögreglan hefur haft afskipti af þeim vegna afbrotahegðunar.

Að upplýsa yfirmenn eða atvinnurekendur um hegðun þína þýðir ekki endilega að þú missir vinnuna. Sumir atvinnurekendur gefa fólki tækifæri á því að halda áfram að starfa. Engu að síður er mikilvægt að undirbúa sig undir það að óskað verði eftir því að maður segi upp.

Atvinnuleit í framtíðinni

Ef þú ert sakfelldur fyrir hegðunina getur það sett hömlur á atvinnuleit þína í framtíðinni. Einhver störf munt þú ekki geta sótt um, eins og að vinna með börnum eða öðrum viðkvæmum hópum. Þetta getur einnig valdið vandamálum ef þú hefur áhuga á kennslu fullorðinna.

Þegar þú sækir um ákveðin störf er óskað eftir sakavottorði. Það er ólöglegt að gefa ekki réttar upplýsingar um sakaferil sinn.

Hvað næst?

Það fyrsta sem þú ættir að gera er að hafa samband við Taktu skrefið sem aðstoðar fólk sem hefur áhyggjur af kynferðislegri hegðun sinni eða hefur beitt kynferðisofbeldi. Hafðu samband með því að senda tölvupóst á taktuskrefid@taktuskrefid.is. Tölvupósti er svarað eins og fljótt og hægt er, að minnsta kosti vikulega.