Published On: 08/01/202310.9 min readCategories: Ólögleg hegðun á netinu, Skilningur á hegðun (netið)

Markmið

Þessi hluti hjálpar við að skilja:

 • Réttlætingar sem fólk notar til að forðast að taka ábyrgð á hegðun sinni.
 • Að þetta eru myndir af börnum sem verið er að misnota.
 • Áhrifin sem myndataka af þessu tagi hefur á börnin til framtíðar.

Raunveruleiki kynferðislegra mynda

Flestir nota réttlætingar til að sannfæra sig um að það sé í lagi að skoða kynferðislegt myndefni af börnum. Réttlætingar gera það að verkum að einstaklingar sýna af sér óviðeigandi hegðun þó hún stangist á við grunnviðhorf þeirra.

Til að byrja með er fólk oftast meðvitað um að það sé að nota réttlætingar til að friða samviskuna en með tímanum og aukinni notkun getur verið að það hættir að taka eftir því.

Ég skil að ólöglegt myndefni af börnum er misnotkun. 1 2 3
Ég get séð réttlætingar sem ég hef notað til að afsaka hegðun mína á netinu. 1 2 3
Ég skil áhrifin sem myndatakan hefur á barnið í myndefninu. 1 2 3

Mikilvægt er að halda áfram með kaflann þó þú segist skilja allt ofangreint. Því betur sem fólk áttar sig á skaðanum sem börn verða fyrir því líklegra er að fólk hætti að skoða kynferðislegt myndefni af börnum.

Verkefni 1. Að skilja og svara réttlætingum með sjálfstali

Sjálfstal er samtal sem við eigum við okkur sjálf, oftast í hljóði, og getur haft mismunandi tilgang, allt frá hrósi og hvatning til gagnrýni eða réttlætingar. Réttlæting er leið sem er notuð til að telja sér trú um að það sé í lagi að gera hluti sem eru rangir.

Hérna er dæmi:

Ef já-réttlætingarnar eru sterkari en nei-réttlætingarnar fyrir því að gera eitthvað, þá nær fólk að sannfæra sig um að láta vaða.

Með því að verða meðvitaðri um sjálfstalið þitt muntu auka getu þína og hvata til að forðast óviðeigandi hegðun.

Í töflunni hér fyrir neðan eru setningar sem margir nota í sjálfstali til að réttlæta notkun sína á ólöglegu kynferðislegu myndefni af börnum. Reyndu að finna svör við þessum réttlætingum sem draga úr þeim. Fyrsta svarið er gefið en reyndu að svara hinum. Best er að skrifa niður svörin því þá festast þau betur í huga þínum.

Samþykki

Samþykki þýðir að veita leyfi fyrir einhverju. Það er mikilvægt að velta fyrir sér samþykki í kynferðislegu myndefni af börnum því börn geta ekki gefið samþykki fyrir kynferðislegum athöfnum.

Hvers vegna geta börn ekki gefið samþykki fyrir kynferðislegum athöfnum?

Fullorðnir geta yfirleitt veitt upplýst samþykki fyrir kynferðislegum athöfnum og myndum en þó ekki alltaf, til dæmis getur manneskja undir miklum áhrifum vímuefna eða með þroskafrávik ekki veitt samþykki.
Börn geta ekki veitt samþykki vegna þess að þau skilja ekki til fulls afleiðingar þess sem samþykki hefur í sambandi við kynferðislega hegðun. Þetta á einnig við um kynferðislegt myndefni sem sett er á netið enda eru allar kynferðislegar myndir af börnum yngri en 18 ára ólöglegar.
Þegar mynd er sett á netið tapast öll stjórn á myndinni. Sá sem er á myndinni hefur ekkert um það að segja hverjir sjá og skoða myndina. Þetta getur valdið þeim mikilli vanlíðan og skaða og er ein tegund af misnotkun.

Kynferðislegt myndefni af börnum undir 18 ára er ólöglegt

Mikilvægt er að muna að allt kynferðislegt myndefni af börnum er ólöglegt. Sama hvernig myndefnið er, ef það er notað til að kveikja á kynferðislegri spennu og það inniheldur börn, þá er það ólöglegt athæfi. Dæmi um þannig myndir:

 • Myndir teknar á nektarnýlendu af börnum (naturist)
 • „Fyrirsætu“-myndir
 • Teiknimyndir (manga) sem sýna kynferðislega hegðun
 • Kynferðislegar myndir sem barn tekur sjálft

Þessar myndir geta aukið kynferðislegan áhuga og orðið til þess að sá sem skoðar myndirnar verður forvitinn um hvers konar annað efni er til og er þá oft kominn út á hálan ís. Mikilvægt er að muna að myndir af börnum eru almennt teknar af fullorðnum og í mörgum tilfellum hafa þau verið þvinguð í þessar aðstæður. Þetta er ein tegund af misnotkun.

Varðandi sjálfsmyndir barna af kynferðislegum toga þarf að muna að þó að barnið hafi hugsanlega samþykkt að taka myndina í upphafi, þá mun það nær örugglega ekki hafa samþykkt dreifingu á myndinni um allan heim. Börn vilja ekki að ókunnugir einstaklingar séu að skoða myndir af þeim og getur það valdið þeim miklum skaða.

Þá þarf að hafa í huga að í sumum tilfellum veit barnið ekki að verið sé að taka myndir af því fáklæddu, til dæmis á ströndinni, og í öðrum tilfellum er barninu mútað til að láta taka myndir af sér. Oft fá börn gjafir, vímuefni, ástúð eða gistingu – gegn því að stunda kynferðislegar athafnir, samhliða því að tekið er upp kynferðislegt myndefni af þeim.

Hér er verið að vekja athygli á að börn sem birtast á myndunum hafa almennt ekki tekið sjálfstæða ákvörðun um að vera á myndinni og mikilvægt er að hugsa út í hvernig það kom til að barnið endaði fyrir framan myndavélina, þó að það geti verið erfitt að hugsa út í það.

Verkefni 2. Samkennd

Samkennd er að skilja tilfinningar og hugsanir annarra. Að geta sett sig í þeirra spor og fundið til með þeim.

Af hverju er erfitt að sýna samkennd?

Okkur finnst almennt erfiðara að hafa samkennd eða samsama okkur fólki sem er ekki í okkar nærumhverfi. Þetta á oft við þegar verið er að horfa á kynferðislegar myndir af börnum. Barnið er „langt í burtu“ frá þeim sem skoðar myndina og því takmörkuð samkennd sem vaknar. En við vitum yfirleitt ekkert um aðstæður þessa barns, það kann að vera bágstatt, einangrað, vanrækt, þvingað eða hefur búið við ofbeldisfullar aðstæður. Þessi æfing er hugsuð til að æfa þig í að velta fyrir þér barninu á bak við myndina, barninu sem hefur eigin hugsanir, tilfinningar, vandamál og líf.

Viðvörun
Þessi æfing er erfið og tilfinningalega krefjandi. Gerðu hlé á æfingunni ef þér finnst þörf á. Passaðu upp á þig, til dæmis með því að hafa einhvern sem þú getur talað við ef þú finnur fyrir geðshræringu eða með því að gera eitthvað sem róar þig. Mundu að tilfinningalegt uppnám getur aukið hættuna á óviðeigandi hegðun og því er mikilvægt að þú hlúir vel að eigin líðan.

Hluti A: Hvernig komstu hingað?

Hugsaðu um barn á mynd sem þú hefur séð. Svaraðu eftirfarandi spurningum eins vel og þú getur:

1. Af hverju skoðaðir þú þessa mynd?

2. Hvernig fannstu þessa mynd?

3. Hvað færð þú út úr því að skoða þessa mynd?

4. Hvað leiddi til þess að þú fórst að skoða svona myndir?

Hluti B: Hver er að stýra myndatökunni og af hverju?

Með því að hugsa til sömu myndar og í hluta A taktu nú eftir umhverfinu á myndinni.

1. Hver er að taka myndina og af hverju?

2. Hvað er ljósmyndarinn að hunsa í hegðun barnsins?

3. Hvernig réttlætir ljósmyndarinn myndatökuna?

4. Hvað á að gera við myndirnar eftir myndatökuna?

Hluti C: Barnið á myndinni

Algeng réttlæting sem fólk notar til að leyfa sér að skoða kynferðislegt myndefni af börnum er að börnin á myndunum séu „ekki raunveruleg börn“ – að það sem verið er að skoða á netinu sé aðeins mynd á skjánum. Í þessum hluta þarftu að reyna að átta þig á barninu á myndinni og reyna að skilja að barnið er raunverulegt barn – með hugsanir, tilfinningar, vonir og drauma – og að verið sé að misnota barnið í þessum aðstæðum. Þrátt fyrir að myndin sem þú hugsar um geti verið af dreng, stúlku eða bæði, þá eru spurningarnar settar fram almennt. Veltu nú fyrir þér eftirfarandi spurningum um barnið:

 • Hvað fær það til þess að hlæja upphátt?
 • Hver er dýrmætasta eign þess?
 • Hvað gerir það í frítíma sínum?
 • Hvers lítur barnið upp til?
 • Hver er mesti ótti barnsins? Hverjum hefur barnið sagt frá þessu? Hverjum myndi barnið aldrei segja frá þessu? Af hverju?
 • Hvað vill barnið verða þegar það verður fullorðið?
 • Hvert leitar barnið þegar það er hrætt?
 • Hverjir eru í fjölskyldu barnsins? Hverjir eru foreldrar þess? Á það systkini?
 • Hverjir eru vinir barnsins?
 • Hvað varð til þess að barnið var fyrir framan myndavélina?
 • Hvað heldur barnið að sé að gerast?
 • Ef barninu hefur verið sagt að halda því leyndu sem gerst hefur, hvernig myndi því líða?
 • Hvað mun barnið hugsa um fyrir svefninn?

Vonandi hefur þessi æfing hjálpað þér að „kynnast“ manneskjunni á myndinni og að hún sé með eigin hugsanir, tilfinningar og vandamál.

Hluti D: Áhrif á þolanda

Hugsaðu um sömu mynd og áður. Hvert er sjónarhorn barnsins á því sem er að gerast á meðan þessi myndataka átti sér stað og hvaða áhrif gæti það haft á barnið?

1. Hvað gæti barnið hugsað og fundið fyrir?

2. Af hverju gæti barnið verið að brosa á myndinni? Einbeittu þér að raunveruleikanum sem gæti legið að baki þessu brosi.

3. Reyndu að ímynda þér hvernig barnið gæti hagað sér, hugsað eða liðið eftir að hafa verið beitt ofbeldi?

4. Hvaða áhrif gæti vera myndanna á netinu haft á barnið?

5. Hvernig gæti barnið hagað sér, hugsað eða liðið ef það reynir að tala um þetta við einhvern fullorðinn?

6. Hugsaðu út í hverjar langtíma afleiðingar misnotkunarinnar geta verið fyrir barnið?

Áhrifin sem kynferðislegt myndefni hefur á börn

Sálfræðingar hafa reynt að skoða hvað það þýðir fyrir barn að vera myndað kynferðislega og að myndefnið sé notað á kynferðislegan hátt (til dæmis í fantasíum eða við sjálfsfróun).

Myndataka er misnotkun

Það er algengt að þeir sem skoða myndir af börnum tengi það ekki við misnotkun. En upplifun barnsins er allt önnur. Vitneskjan um að myndir af þeim séu í dreifingu á netinu og að ókunnugir noti þessar myndir í kynferðislegum tilgangi veldur þeim miklum sársauka og er ákveðin tegund af misnotkun.

Það sem sést ekki á myndum eða myndskeiðum er að misnotkun getur valdið alvarlegum líkamlegum afleiðingum, svo sem þvagfærasýkingu og eymslum í kringum kynfærin eða endaþarm, höfuðverk og uppköst. Einnig eru andlegar afleiðingar algengar, eins og þunglyndi, þreyta, erfiðleikar við einbeitingu og martraðir. Þetta getur einnig leitt til annarra vandamála, svo sem að barnið hagi sér eða tali á kynferðislegan hátt, hegði sér óæskilega eða sé árásargjarnt og líka haft áhrif á samskipti þeirra við önnur börn og fullorðna þegar þau eldast.

Eftir að börn segja frá misnotkun

Flestum finnst erfitt að segja frá kynferðisofbeldi og þar eru börn engin undantekning. Það reynist börnum enn erfiðara að segja frá þegar misnotkunin hefur verið tekin upp. Börn segja oft bara frá hluta af því sem hefur gerst þar sem tilfinningar eins og skömm, niðurlæging og hjálparleysi fylgja oft svona reynslu. Þau hafa áhyggjur af því að myndefnið sé sönnun fyrir því að þau hafi verið viljugir þátttakendur þó að raunveruleikinn hafi verið annar. Barn sem sést brosa á mynd getur haft áhyggjur af því að aðrir haldi að það hafi notið reynslunnar þegar það var í raun þvingað eða neytt til að brosa.

Langtímaafleiðingar þess að hafa verið mynduð kynferðislega geta meðal annars verið:

 • Erfiðar tilfinningar eins og skömm og vonleysi.
 • Neikvæð sjálfsmynd og erfiðleikar við að tengjast öðrum.
 • Sársauki sem fylgir því að vita að þótt misnotkun hafi hætt geta aðrir ennþá haft aðgang að myndunum án þess að neitt sé hægt að gera í því.
 • Áhyggjur af því að myndirnar gætu leitt til misnotkunar á öðrum börnum.

Ef þú vilt ræða eitthvað sem kom fram í þessari æfingu, hefur átt erfitt með að komast í gegnum verkefnin eða vilt tækifæri til að fara í gegnum verkefni með meðferðaraðila ekki hika við að hafa samband með tölvupósti á taktuskrefid@taktuskrefid.is.