Þú þarft að skilja lögin til að þú vitir hvað er rétt eða rangt (jafnvel þó þú sért ósammála). Handtaka veldur margskonar afleiðingum, ekki bara að fá fangelsisdóm.
Ólöglegar myndir af börnum eru kynferðislegar myndir af einhverjum undir 18 ára aldri. Þar má nefna:
- Myndir af nöktum börnum, teknar af öðrum eða þeim sjálfum.
- Myndir af börnum í kynferðislegum stellingum.
- Myndir af börnum í kynferðislegum athöfnum.
Þessi skilgreining nær til mynda, myndbanda eða gervimynda. Allt er þetta ólöglegt.
Ekkert „grátt svæði“
Margir sem hafa sýnt af sér óviðeigandi kynhegðun á netinu halda að það sé „grátt svæði” milli þess sem er löglegt og ólöglegt. Það er ekkert grátt svæði.
- Myndir af nöktum börnum á netinu
Ef þú skoðar mynd af barni til að örvast kynferðislega þá er það ólöglegt. - Óvissa um aldur
Ekki halda áfram að skoða ef þú ert ekki viss um hvort myndefnið sé af fullorðnum einstaklingi eða barni. Ekki halda áfram samskiptum ef þú ert ekki viss um hvort viðkomandi sé fullorðinn eða barn. Það er ekkert grátt svæði. Ef það er einhver óvissa, hættu þá. Lögin eru mjög skýr. - Lögaldur er 18 ára
Einstaklingur þarf að vera orðinn 18 ára til að koma fram í kynferðislegu myndefni sem hann tekur ekki sjálfur. - Aldursmunur í samskiptum á netinu
Ef þú ert í kynferðislegum samskiptum á netinu við einstakling sem er 15 til 17 ára og þú ert ekki á svipuðum aldri eru samskiptin ólögleg og refsiverð. - Myndir af börnum sem ekki eru kynferðislegar
Ef þú skoðar mynd af barni til að örvast kynferðislega, hvort sem barnið er nakið, hálf nakið eða í fötum, þá er það óviðeigandi. Lögreglunni gæti fundist það grunsamlegt að vera með margar myndir af börnum þó þau séu í fötum. - Myndefni sem kemur annars staðar frá
Lönd hafa mismunandi lög varðandi löglegan aldur einstaklings til að taka þátt í kynferðislegu myndefni. Það þýðir ekki að það sé löglegt á Íslandi að skoða myndefni sem á uppruna sinn frá öðrum löndum. Það er alltaf ólöglegt á Íslandi ef einstaklingur í myndefninu er undir 18 ára. - Ég er ekki Íslendingur
Öll kynferðisleg hegðun sem tengist börnum er ólögleg á Íslandi. Það skiptir engu hvaðan þú kemur.
Afleiðingar
Margir sem brjóta af sér á netinu halda að það muni aldrei komast upp um þá en það er ekki rétt. Lögreglan á í umfangsmiklum rannsóknum sem eru sérstaklega miðaðar að því að ná fólki sem brýtur af sér á netinu.
Fyrstu viðbrögð
Mögulega hefur lögreglan komið heim til þín og handtekið þig vegna gruns um ólöglega hegðun á netinu. Ef hegðunin hefur valdið þér vanlíðan gætir þú upplifað ákveðinn létti að þurfa ekki lengur að vera í felum. Algengt er að upplifa óvissu, hræðslu eða doða. Þú gætir verið með spurningar um hvaða áhrif þetta hafi á fjölskylduna þína og vini; ferlið innan réttarkerfisins og tímann sem það tekur; hvað gerist ef málið fer í fjölmiðla, hvað öðru fólki muni finnast og hvað tekur við. Mikilvægt er að reyna eftir bestu getu að fylgja rútínu og halda lífinu í sem eðlilegustu skorðum. Það er óþarfi að hætta við öll fyrirfram ákveðin plön.
Það er líklegt að fjölmargar hugsanir fari í gegnum hugann og að þú finnir fyrir depurð eða vonleysi. Þú gætir einnig fundið fyrir miklum kvíða, fengið kvíðakast eða jafnvel hugsanir um að skaða sjálfan þig eða sjálfsvíg. Slíkar tilfinningar eru mjög algengar. Það er mjög mikilvægt að þú leitir þér aðstoðar, fáir stuðning við þessum hugsunum og tilfinningum og byrjir breytingaferlið í átt að betri framtíð, án þess að brjóta lög.
Réttarkerfið
Ein helsta afleiðing þess að brjóta af sér á netinu eru afskipti lögreglu og réttarkerfisins.
Fyrstu afskipti yfirvalda
Byrja með banki á hurðinni hjá þér.
Tæki haldlögð
Í fyrstu heimsókn lögreglu til þín mun hún líklega leita í húsnæði þínu og taka öll raftæki þín (farsíma, tölvur, myndavélar, harða diska og svo framvegis). Tækin eru send í rannsókn þar sem farið er í gegnum þau af sérþjálfuðum aðilum. Rannsóknin getur tekið langan tíma og ef ólöglegt efni finnst á tækinu þá færðu það ekki aftur til baka.
Handtaka
Að lokinni húsleit handtekur lögreglan þig og fer með þig í fangaklefa á lögreglustöð þar sem skýrsla verður tekin af þér. Þú átt rétt á verjanda sem má vera viðstaddur skýrslutöku hjá lögreglu. Eftir skýrslutöku færðu líklega að fara. Þú þarft svo að koma aftur til skýrslutöku síðar. Nokkrar vikur eða jafnvel mánuðir geta liðið þar á milli. Það fer eftir rannsókn málsins og hvort nýjar upplýsingar koma fram. Mælst er með að þú hættir allri ólöglegri hegðun ef þú hefur ekki gert það nú þegar.
Barnavernd
Barnavernd í viðeigandi sveitarfélagi fær tilkynningu ef verið er að rannsaka þig fyrir brot tengd börnum og:
- Þú átt börn undir 18 ára.
- Það eru einhver önnur börn sem þú hefur samskipti við í fjölskyldunni eða í kringum þig.
Málalok
Þegar lögregla fær mál til rannsóknar þá getur máli lokið á tvo vegu:
1. Mál fellt niður
Lögregla gæti hætt rannsókn ef ekki er grundvöllur til að halda henni áfram. Ef lögregla klárar rannsóknina og sendir málið áfram getur ákærandi fellt málið niður telji hann gögn ekki nægjanleg eða málið ólíklegt til sakfellingar.
2. Ákæra
Ef málið þitt er talið líklegt til sakfellingar þá er gefin út formleg ákæra. Þá ber þér skylda að koma fyrir héraðsdóm og svara þar til saka. Eftir málsmeðferð fyrir dómstólum fellur dómur málsins. Það getur þýtt sýkna eða sakfelling. Sakfelling fyrir ólöglega kynhegðun gagnvart barni getur verið skilorðsbundinn eða óskilorðsbundinn dómur og bótagreiðsla.
Gríptu tækifærið til að fá aðstoð
Þessi tími getur valdið mikilli streitu, bæði hjá þér og fjölskyldunni, þar sem allir eru að takast á við óvissu og áhyggjur.
Hvað næst?
Það fyrsta sem þú gætir gert er að hafa samband og fá aðstoð hjá Taktu skrefið sem aðstoðar fólk sem hefur áhyggjur af kynferðislegri hegðun sinni eða hefur beitt kynferðisofbeldi. Þú getur sent þeim tölvupóst á taktuskrefid@taktuskrefid.is.